10.04.2010 05:03

Brot úr dagbókum, bréfum og greinargerðum frá Þórarni Ó. Reykdal á Hólmavík









                                     Fleiri myndir í myndaalbúminu hér aðeins ofar.


                        Greinargerð frá 3. mars 1962

Aðfararnótt sunnudags þann 14. janúar 1962 slitnaði háspennulínan yfir Tröllatungu-heiði aftur. Veðrið um nóttina og daginn áður var norðaustan stormur og bleytukafald.

            Á sunnudagsmorgninum hringdi ég að Tröllatungu og bað þá bræður að koma með mér upp á Tunguheiði vegna þess að ég héldi að háspennulínan væri slitin. Fór ég síðan með það af efni sem ég taldi að hægt væri að bera og annað sem til greina gat komið að þyrfti að nota. Er ég var kominn á móts við bæinn Tröllatungu komu bræðurnir og héldum við síðan á heiðina. Einn var með hest með sér, ég ákvað að hann færi suður á heiðina en snéri við er hann væri kominn suður á miðja heiði. Bjóst ég ekki við að hann yrði var við menn á þeirri leið þar sem við vorum það snemma á ferð. Þegar upp á heiðina kom var enn þolanlegt veður. Ákvað ég því að fara eins langt á bílnum og ég taldi fært og gott að hafa bílinn sem næst sér ef veður breyttist en veðurspáin var allt annað en góð.

            Er komið var að nyrstu viðgerð Friðriks og Lúðvíks reyndist allt þar eins og gengið var frá því. Er haldið var lengra kom í ljós að einn vír var slitinn á milli staura nr. 126 og 127, einnig var þversláin brotin, hafði klofnað úr pinna um enda eins vírsins og á ská útúr, einangrari lá niðri óbrotinn. Frá þessum staur sást einnig að slitið var og brotið ekki alllangt í burtu. Var því farið þangað og viðgerð hafin. Á staur 132 var brotin þverslá, hafði klofnað úr pinna um enda eins vírsins og á ská út úr þverslánni. Þarna var einnig slitinn eittvírinn og einangrari lá niðri að mestu heill, hafði kvarnast örlítið úr efstu brún á einangraranum. Þennan einangrara varð ég að nota þar sem ég hafði ekki annan tiltækan. Á næstu staurum þar sem toppbúnaður var heill voru þverslár snúnar til og vírar misslakir.

            Á staur 128 var þverslá brotin, hafði klofnað úr pinna um enda eittvírsins og á ská út úr, einangrari lá niðri óbrotinn og vírinn heill. Einangrari eittvírsins er fallið hafði niður úr staur 128 settur í sömu þverslá en færður nær toppi um 25 cm. Þarna var skipt um pikkann þar sem hann var svo boginn. Maðurinn sem fór með línunni kom nú meðan unnið var við þessa bilun og sagði ekkert meira slitnað, enga menn hafði hann séð sunnan frá og ekkert sem benti til þess að farið hefði verið með línunni að sunnan. Á staur nr. 126 var brotin þversláin og slitinn eittvírinn. Einangrari eittvírsins var settur á sömu slá, færður nær toppi um ca. 30 cm þannig að fasabilið varð 1,70 m, þverslár skakkar og snúnar á staurnum sinnhvorum megin við þennan staur og vírar misslakir. Jafnóðum og ég flutti mig milli staura fór ég upp í staurana og sló ísingu af línunum svo að eftir á línunum var ekki nein ísing að ráði, en með því móti fékk ég línurnar jafnar. Eittvírinn strengdi ég eins mikið og mér fanns þorandi, en það var orðið mjög erfitt að eiga við það undir það síðasta þar sem komin var þó nokkur snjókoma og norðaustan stormur og hörkufrost alltaf 10-15 gráður. Um kl. 19:30 var viðgerð lokið og haldið af stað heim. Þar sem búið var að loka síma er við komum á móts við Tröllatungu ákvað ég að setja ekki straum á línuna fyrr en ég hefði samband við þá fyrir sunnan, en það reyndist ekki hægt að ná suðuryfir í gegnum símann um kvöldið.

            Þess skal að lokum getið að sameiginlegt með öllum þessum slitum var galli í stálkjarnanum, virtist soðið saman og myndaðist hnúður dálítið ryðgaður. Ísingin á vírnum var slydduísing ójöfn og hnúðótt 2-3".

            Þar sem ég setti vírinn saman til strengingar notaði ég alúmín snúðhólka, tvo á hver samskeyti, þar sem ég tengdi saman vírinn, þegar búið var að strengja hann notaði ég falltreystiklemmur. Ísingarsvæðið virtist liggja á milli staura 110 til 150. Síðan þessi viðgerðarferð var farin er ég búinn að fá efni til að endurnýja það sem nauðsynlega þarf.

                Úr bréfi til Guðrúnar Reykdal  2. apríl 1962

Í október bilaði lega í rafstöðinni en skemmdi ekkert út frá sér. Í desember bilaði aðaljarðstrengur frá rafalnum og út á spennirinn og svo í janúar bilaði eða slitnaði nýja háspennulínan yfir Tunguheiði svo það hefir verið alveg nóg að gera með köflum. Þegar legan fór var ég staddur í stöðinni sem betur fór, það var vegna bilunar á smurdælu sem þetta kom fyrir og öryggisliðinn sem var fyrir þessa legu vann ekki vegna bilunar á kaplinum að honum. Í jarðstengsmúffuna hafði komið vatn, reyndist hægt að lagfæra það mjög fljótlega eða á einni nóttu, eins og með leguna.

Svo er það háspennulínan, hún er búin að slitna tvisvar. Í fyrra skiptið fékk ég aðstoð að sunnan, var þá línan slitin á tveimur stöðum uppi á heiðinni og brotið ofan af einum staur um það bil einn metri ofanaf staurnum. Í seinna skiptið slitnaði línan aftur á svipuðum slóðum og var þá slitin á þremur stöðum og þrjár þverslár voru brotnar. Við línuna gerði ég sjálfur, fékk með mér þrjá bændur frá næsta bæ þarna við heiðina. Besta veður var þegar við lögðum af stað en þegar viðgerðinni var lokið kl. 8 um kvöldið var komin norðaustan stormur og snjókoma og hörkufrost. Ég fór alla leið á trukknum og var gott að hafa hann hjá sér þar sem veðrið var svona vont. Það mikið var frostið orðið að mjólkurflaska sem var í bílnum var búin að spýta tappanum og mjólkin eins og hvítur klakaströngull teygði sig upp úr stútnum. En síðan hefur línan hangið saman en ég á eftir að fara í vor og ganga frá henni til fullnustu. Öll slitin á þessari háspennulínu stafa frá gölluðum samsetningum á stálkjarnanum hjá verk-smiðjunni sem framleiðir þennan vír.

               Skemmdir á mannvirkjum af völdum hafíss

1965

Þann 27. mars 1965 kl. 3 að nóttu rofnaði straumur á Dragsneslínu. Orsök reyndist vera skemmd á sæstrengnum sem er yfir steingrímsfjörð. Skammdin var í landtaki Hólmavíkurmegin. Strengurinn var marinn en ekki slitinn. Eftir viðgerð var strengur-inn grafinn niður eins og hægt var. Tvö grjótkör voru einnig sett fram á marbakka og jarðýta síðan látin flytja grjót og malarjarðveg eins langt út og hægt var. Stuttu eftir að hafísinn kom í fjörðinn var strengdur vír úr hafskipabryggjunni og yfir í svonefndan Höfða. Með því móti var hægt að verja bátana í höfninni fyrir ísnum. Sjávarhiti var þennan vetur lítill eða um + 1,5 gráður á Celcíus, lagnaðarís var mikill framan af vetri og varð mannheldur, 6-8 tommur að þykkt í höfninni og nokkuð út á fjörð þegar logn hafði verið og hafísinn var ekki að brjóta hann niður. Engar skemmdir urðu á hafskipabryggjunni á Hólmavík af völdum hafíss en það mun vera vegna þess að útkantar hennar eru niðurrekið stálþil. Ískambur kemur í fjörur hér á hverjum vetri. Ég held að mér sé óhætt að skrifa það þó ég hafi ekki veitt því athygli fyrr en á seinni vetrum. Lagnaðarís virðist mér frekar hafa aukist með árunum, og það sem frekar styður það er að bátar hér hafa ekki komist út úr höfninni í seinni tíð og ekki reynt að komast út nema þeir væru ísvarðir.

1966

Enginn hafís kom en hér var lagnaðarís sem olli engum skemmdum á mannvirkjum (bryggju).

1967

Þennan vetur var lítið um hafís hér inni á Steingrímsfirði en 30. mars voru stakir jakar að flækjast um Steingrímsfjörð en ollu engum skemmdum.

1968

Þennan vetur var mikill lagnaðarís á höfninni og út frá landi, mesta frost mældist 18-20 gráður á Celcíus þann 1. apríl 1968. Hafísinn kom þennan vetur en olli engum skemmdum á sæstreng eða bryggju.

1969

Snemma í febrúar var hafís kominn á flóann og þann 24. sama mánaðar sást hafís frá Drangsnesi. Þann 26. febrúar var hann kominn á móts við Víðidalsá í Hólmavíkur-hreppi og Kleifar á Selströnd. Þann 6. mars fór rafmagn af Drangsneslínu. Við athugun kom í ljós að hafísinn hafði pressað sæstrenginn flatan á 6-8 tommu löngum kafla og smáskemmdir voru víðar á strengnum. Þessar skemmdir voru á sæstrengnum Sandnesmegin. Viðgerð á strengnum var lokið þann 21. mars. Settir voru sements-pokar að og yfir strenginn til varnar hafísnum, einnig var hann grafinn niður eins og hægt var. Kafari var þar með dælu og gróf skurð fyrir strenginn og síðan voru sementspokar settir ofan á. Eftir þessar aðgerðir verður að telja að strengurinn sé mjög vel varinn fyrir áverkum af völdum hafíss í landtökum.

            Þann 21. október 1969 kl. 10:35 rofnaði straumur á Drangsneslínu. Orsök reyndist vera útleiðsla á sæstrengnum. Enginn  hafís var nú á firðinum en telja varð að þessi bilun væri af hans völdum. Við athugun kom í ljós að hann var skaddaður en lítið bar þó á því. Það var engu líkara en réttst hafi úr skemmdum er gátu stafað af því að jakarnir hafi ekki náð til að pressa strenginn um lengri tíma. Var hann því grafinn upp og sett stykki í hann en síðan gengið frá honum á sama hátt og áður. Þessi bilun var í landtaki sandnesmegin við Steingrímsfjörð.

                           Úr dagbók frá 1974

Þann 30. janúar 1974 rofnaði straumur af Tröllatunguheiðarlínu kl 15. Farið var til viðgerða kl 16:30. Í ljós kom að á svonefndu Skeiði var mikil ísing og línan slitin á þremur stöðum og tvær þverslár brotnar. Gert var við þessar bilanir, straumur settur á línuna kl. 24:30 og reyndist þá í lagi. 

            Þann 31. janúar rofnaði straumur aftur af Tröllatunguheiðarlínu kl. 6 að morgni. Lagt var af stað kl. 9 á snjóbílnum. Skafhríð var í byggð norð-norðaustan svo vafamál var hvort leggja átti í þessa ferð. Þegar upp á heiðina var komið var þar skafhríð og mjög lélegt skyggni. Allar aðstæður til vinnu voru mjög slæmar. Það virtist komin mikil ísing á alla línuna yfir heiðina og nokkur slit. Sökum veðurs var útilokað að gera við nokkuð því þegar leið á daginn herti á veðrinu og komin voru 10-12 vindstig og ofanhríð að auki Þar sem ísingin var mest og vírar og staurar heilir var ísing hreinsuð af vírum en síðan farið heim.

            Þann 1. febrúar kl. 9 var enn lagt af stað upp á Tröllatunguheiði til viðgerða á Tröllatunguheiðarlínu. Skaplegt veður var í byggð þegar lagt var af stað. Um hádegis-bilið var komið upp á heiðina. Þá var þar skafhríð og mjög lélegt skyggni en þó rofaði til annað slagið. Ákveðið var að keyra með línunni suður að geymsluhúsinu. Ekkert slit var þarna en þónokkur ísing. Því var keyrt lengra suður á heiðina, skiptu menn sér og fóru að draga ísinguna af fyrir sunnan húsið en aðrir héldu lengra á snjóbílnum og fóru að hreinsa af línunni fjær. Fyrsta slit sem við komum að var á staurabili 181-182, þversláin var brotin á staur 181 og einn vírinn slitinn. Er komið var sunnar á heiðina reyndist slit á staurabili 185-186 og voru tveir vírar slitnir. Áfram var haldið suður á heiðina þó skyggni væri mjög slæmt með köflum. Á staur nr. 195 var þverslá brotin og snúin til. Einn vír var slitinn á spenni 194-195 og hinn vírinn slitinn á spenni 195-196, hann var þar slitinn við kúlu en kúluklemman hélt vírnum strengdum öðrum megin. Komið var að staurum 189 og 190 og var þar allt heilt en ísing á vírum. Vírar voru um 2 metra frá jörðu á þessu spenni, þvermál ísingar var 19 cm. Þarna var tekið sýni af ísingu og reyndist ísing af einum metra vega 2750 grömm. Fórum við með línunni að staur númer 207, þar fyrir sunnan virtist hún vera orðin nokkuð hrein. Menn frá Grími á Tindum og svo menn Kristjóns Sigurðssonar höfðu yfirfarið línuna fyrir sunnan staur 207 en þar var allt heilt. Var nú haldið til baka og sú ísing sem eftir var að hreinsa burt dregin af. 

            Þann 12. febrúar 1974 kl. 13 var farið til viðgerða yfir á Selströnd. Farið var á snjóbíl Slysavarnarfélagsins. Norðaustan skafhríð var og skyggni mjög lítið. Þegar komið var yfir brúna á Ósá var töluverð ísing á símalínum og þónokkur slit. Er komið var yfir Selárbrú fór að bera meira á ísingu og slitum á símavírum og voru símastaurar brotnir í Bassastaðakróknum. Ísing þar var tæpir 15 cm í þvermál en þarna er síminn um 10 metra frá sjó. Kl. 16:30 vorum við komnir að úttaki Bjarnafjarðarlínu á Selströnd. Vegna slæms veðurs og ónógs skyggnis var ekki farið lengra en að næsta staur við úttak í Bjarnafjörð. Þar var afspennt og línan leyst í sundur og Jón Traustason látinn setja straum á Bjarnafjarðarlínu frá Hólmavík og reyndist línan í lagi. Haldið var heim, aðeins virtist hafa rofað til er við fórum af stað en það stóð ekki lengi því svartabylur var kominn er við komum í Bassastaðakrókinn og skyggni einn til tveir metrar, hittum þó á Selárbrúna en viltumst svo af leið og fyrr en nokkurn grunaði vorum við komnir útað sjó en það var fjara og það bjargaði okkur ásamt megnu sjólofti. Við komum heim til Hólmavíkur um kvöldið mjög fegnir.

            Farið var til viðgerða yfir á Selströnd 13. febrúar kl. 9:30. Veður hafði heldur gengið niður frá deginum áður svo ratljóst mátti heita. Þegar komið var yfir að Grænanesi sást óljóst hvar slóð okkar lá og leist okkur ekki vænlegt að fara þá leið.  Allt virtist í lagi með Bjarnafjarðarlínu. Á Selströnd var mikil ísing á tveimur spennum milli Sandness og Hellu. Lagfærð var heimtaug við Hamarsbæli og farið með línunni til Drangsness. Lagfærð var tenging í endastaur á Drangsnesi og síðan var settur straumur á línuna frá dísilnum á Drangsnesi og reyndist þá allt í lagi. Komum heim kl. 21. Gústi, Hrólfur, Sævar, Mundi, ÞR.

            Þann 14. febrúar var farið yfir á Tröllatunguheiði kl. 12:30 frá Hólmavík. Er upp á heiðina kom var þar skafbylur, þó rofaði til annað slagið framan af degi en samfelld skafhríð var er á daginn leið. Er komið var upp á heiðina að viðgerðahúsinu lá þar staur nr. 131 flatur og hafði brotnað daginn áður og annar vír slitnað og slá brotnað. Staurinn lá þannig að heili endinn á slánni var upp, kúlan var þá metra frá jörðu, ísingin var hreinsuð af þessu spenni þegar við komum að því. Staurinn var brotinn hálfan metra frá jörð, þó var flaski sem náði metra frá jörð. Brotni staurinn var reistur aftur, borað fyrir ¾ bolta í brotið sem stóð upp úr jörðu og neðri enda staurs. Snjóbíllinn reisti síðan staurinn og hélt við hann meðan við röðuðum á samskeitin þverslám og reirðum saman með steypujárnsvír. Síðan voru lagfærðar tengingar á vírunum. Brotin var ísing af línunni frá staur 130 til 127. Farið var suður á heiði að staur nr. 181 en þá var búið að hreinsa alla ísingu af á þeirri leið og línan fyrir sunnan var alveg hrein. Við fórum því heim á leið og hreinsuðum alla ísingu sem var á línunni fyrir norðan 140. Komum heim kl. 21:15. Sævar, Hrólfur, Mundi, Gústi, ÞR.

                                 Úr dagbókum

19.01.1966. Frost í virkjun 14 gráður, Tröllatungu 17 gráður, Hólmavík 12 gráður.

29.01.1966. Gengur á með ofsaveðri.

17.03.1966. Vatnsborðslækkun 5 m.

22.03.1966. Lægsta vatnshæð 5,75 m.

23.03.1966. Frost 11,5 gráður, vatnshiti 1,4 gráður.

29.03.1966. Þennan dag kemur dísillinn kl. 15:50. Settur af við vigtarhús og dreginn í frystihúsið. Unnið við hann þar til hann fer í gang kl. 3. Vél 1 ræst kl. 8:10 og keyrt út á hluta Hólmavíkur og Drangsness og alla Tungusveit og Suðurlínu.

4.04.1966. Skjaldbreið kemur með dísilvél kl. 2 um nótt.

5.04.1966. Unnið dag og nótt við uppsetningu á dísilvélum.

9.04.1966. Unnið við prófun á dísilvélum, settur blásari á spenni til að kæla hann.

18.04.1966. Vatnshæð 5,40 m frá yfirfallsbrún.

25.04.1966. Lóan komin og þrjár álftir á Lækjarós. Vatnshæð 5,30 m. Þennan dag er vöxtur í Húsadalsá merkjanlegur.

14.05.1966. Gott veður. Vatnsborð hækkar um 4-5 cm á sólarhring. Vatnsborðs-lækkun 4,95 m.

15.05.1966. Sunnan, suðaustan. Vorblíða.

20.05.1966. Dísilvél keyrð á toppana til 20. maí.

25.03.1967. Nauðaustan skafhríð. Illfært vegna snjóalaga.

26.03.1967. Nauðaustan stórhríð, fór gangandi til virkjunar.

27.03.1967. Norðaustan skafhríð, fór gangandi til virkjunar.

29.03.1967. Logn. Sólskin. Stakir jakar hjá Grímsey á Steingrímsfirði.

30.03.1967. Sólskin. Stakir smájakar reknir á fjöru.

13.04.1967. Stórrigning. Seiðin koma úr hrognum í kjallara.

14.04.1967. Þennan dag sást einn svanur.

04.02.1968. Norðaustan rok, ófærð mikil. Fór til virkjunar og gisti þar fram á þriðju-dag (06.02).  (Innskot: Þann 4. febrúar var fárviðri á Vestfjörðum og skipsskaðar í Ísafjarðardjúpi).

03.03.1968. Komnir glansblettir á hrogn í kjallara.

18.08.1968. Fór yfir Tunguheiði á bakaleið. Snjóar á heiðinni.

01.01.1969. Húsadalsá kveður og heilsar ári með flóði.

22.04.1969. Fyrstu seiðin koma úr Hrófárhrognunum.

23.04.1969. Hafís á flóanum. Stakir jakar komnir í fjarðarmynnið.

27.04.1969. Að kvöldi sást ísröndin í fjarðarmynninu.

28.04.1969. Ísinn kominn á hreyfingu inn fjörðinn. Að kvöldi voru jakar á dreif um allan fjörðinn.

29.04.1969. Sjónn leggur milli jakanna um allan fjörð.

30.04.1969. Höfnina leggur um nóttina. Ísinn kemur inn fjörðinn um kvöldið.

1.05.1969. Ísinn kominn inn að Hrófá og bryggju. Búið að setja vír úr bryggju og í land.

20.02.1970. Fyrstu seiðin koma úr bleikjuhrognum.

8.03.1970. Vatnslækkun 290 cm.

18.03.1970. Dennan dag rofnaði straumur á Dragsneslínu, líklega vegna bilunar á sæstreng. Dísilvél var send frá Reykjavík og til Drangsness. Bjarnafjarðarýtan mokaði.

21.03.1970. Farið með dísil til Drangsness. Ýtan fór á undan mestalla leiðina.

22.03.1970. Leitað að bilun í sæstreng. Skemmd í múffu.

01.04.1970. Þennan dag að morgni stoppar dísilvélin á Drangsnesi.

04.04.1970. Hettumáfur kominn.

06.04.1970. Viðgerð lokið á sæstreng.

07.04.1970. Þennan dag að kvöldi lagt rauðmaganet.

20.04.1970. Vatnsborðslækkun 4,15 m.

27.04.1970. Vatnsborðslækkun 4,65 m mælt með málbandi.

05.06.1970. Vinnu við sæstreng lokið. Þar sem múffa fór í sjó er 25-26 m dýpi.

19.08.1970. Lokið við að setja niður staura og stög vegna sjónvarps.

20.08.1970. Vinna við stífluhækkun byrjar.

30.08.1970. Búið að klæða yfir 30-40 m af þrýstivatnspípu.

16.12.1970. Um kvöldið fór út Króksfjarðarlína.

22.02.1971. Hafísinn kemur inn á höfnina, svo hvessir vestnorðvestan og hafísinn rekur yfir að Sandnesi.

25.12.1971. Viðgerð lokið á sæstreng þennan dag.

08.01.1973. Vinna við Kollafjarðarlínu: Jón Traustason, Sævar, Björn Sverrisson, Ingimundur P, Ingimundur J, Aðalbjörn Sverrisson.

13.02.1973. Norðaustan stórhríð. Rafmagn fer, vélin út kl. 8:30. Fórum á sleðanum, Sævar og ÞR í rafstöð aðfararnótt miðvikudags (14.02.1973).

14.02.1973. Tröllatungulína í lagi yfir heiðina en ólag á línum fyrir sunnan. Í ljós kom að Héraðslína olli útleysingu á vél II. Hluti af Tungusveitarlínu er rafmagnslaus. Það er rafmagnslaust á Kirkjubólsálmu.

15.02.1973. ÞR í virkjun um nóttina.

26.02.1973. Frost 6,5 gráður. Lagfærð Tungusveitarlína. ÞR, Sævar og Alli.

15.04.1973. Álftir og gæsir komnar.

10.06.1973. Að kvöldi þessa dags snjóar niður að sjó.

22.09.1973. Þriðþjófur Hraundal tekur út Broddadalsárlínu. Rafmagn komið á alla bæi í Kollafirði.

04.01.1974. Stormur, snjókoma, 0 gráður. Rafmagn fer af Selströnd og Bjarnafirði.

05.01.1974. Viðgerðir í Bjarnafirði. Fór kl. 13:30, kom kl. 5 að nóttu.

12.01.1974. Þennan dag kemur díselvél á vörubíl frá Reykjavík. Vélin sett in í frystihús KSH.

13.01.1974. Unnið við tengingu á díselvél til kl. 3 að nóttu.

16.01.1974. Dísill keyrður á Hólmavík og Kaldrananeshrepp. Vatnsvélin keyrð á Héraðslínu og suðuryfir.

25.01.1974. Gengur á með éljum, allhvasst. Dísillinn er að fara út annað slagið, orsök óljós.

26.01.1974. Austan rok og rigning. Að kvöldi þessa dags fór Tröllatungulína út.

27.01.1974. Tröllatungulína fór út.

30.01.1974. Tröllatungulína slitnar. Farið til viðgerða á snjóbíl og gert við á tveimur stöðum. 

31.01.1974. Farið til viðgerða á Tröllatunguheiði. Veðrið versnaði til muna þegar á daginn leið og orðin 10 til 12 vindstig og skafbylur. Þennan dag fundust 5 slit á vírum en vegna veðurs var ekki hægt að ljúka viðgerðum.

01.02.1974. Norðaustan, frost 2 gráður. Farið til viðgerða á Tröllatunguheiði, gert var við 5 slit og hreinsuð ísing af vírum, ísingin var yfir alla heiðina. Línan var sett inn kl. 21 og reyndist í lagi. Í þetta skipti fór Örn Jónsson með upp á Tröllatunguheiði.

25.02.1974. Vatnslækkun 4,65 m.

15.03.1974. Dísillinn kominn í frí.

21.03.1974. Byrjað að draga út staura í Bitrulínu.

23.04.1974. Þennan dag rennur yfir á Stíflu. Ánamaðkar sjást ofanjarðar.

27.06.1974. Sett laxaseiði í Víðidalsá og Húsadalsá, seiðin frá Laxeldissdtöðinni í Kollafirði.

15.07.1974. Byrjað þennan dag í Bitrulínu.

29.07.1974. Þessir vinna við Bitrulínu: Sævar, Eysteinn, Ingimundur P., Rúnar Sverrisson, Jónsi, Jósteinn, Loftur, Pálmi, Magnús Steingrímsson. 

17.10.1974. Þennan dag kemur verkfræðingurinn, farið með jarðýtu fram fyrir Spena, unnið við að stífla frárennsli úr vötnunum.

23.10.1974. Mikil rigning, vatnið hækkar um 0,5 m þennan sólarhring.

13.11.1974. Farið fram að Spena, loftpressan sótt, einnig jarðýtan. Eftir kvöldmat fer rafmagn af suðuryfir, dísillinn bilar. Kl. 22:30 fór rafmagn af Bjarnafirði og Selströnd vegna ísingar.

18.11.1974. Jarðýta, pressa og dráttarvél fram að Spenavatni.

19.11.1974. Snjóbíll fenginn vegna Spenavatns. Boraðar 11 holur og sprengt.

16.12.1974. Vatnsborðslækkun 5,4 m.

19.12.1974. Kongsberg gastúrbína flutt til Hólmavíkur.

28.12.1974. Gastúrbínan framleiðir á móti dísilvél að Brunná.

07.01.1975. Caterpillar díselvél kemur með Esjunni.

12.01.1975. Stórhríð, ofanhríð. Brunnárvélarnar er ekki hægt að keyra saman. Caterpillar stoppar kl 14 vegna kraps og í gang aftur 14:30. Vél I keyrð með caterpillar. Bilun í suðurlínu. Ekki keyrt frá virkjun um nóttina, línan tollir ekki inni.

13.01.1975. Stórhríð, skafhríð. Kollafjarðarlína og suðurlína fóru út.

18.01.1975. Gastúrbínan fer með Esjunni.

04.02.1975. Díselvél bætt við á Drangsnesi.

17.02.1975. Díselvélar á Hólmavík og Drangsnesi keyrðar á móti stóru vélinni á Brunná.

20.02.1975. Rafmagn fer af Bjarnafjarðarlínu. Snjóbíll fenginn norður í Bjarnafjörð.

24.02.1975. Vatnsborðslækkun í Þiðriksvallavatni 5,9 m.

04.03.1975. Vatnslækkun 5,6 m.

07.03.1975. Fórum á Drangsnes á snjóbíl.

03.06.1975. Éljagangur þennan dag og 1 gráðu frost.

22.07.1975. Álag vex, þaraverksmiðja fer að nota meira rafmagn.

02.01.1976. Í dag sér til sólar. Caterpillar á Drangsnesi bilar og rafmagn fer af.

15.02.1976. Skafhríð. Rafmagn fór af Selströnd. Tryggvi fer með línu á Selströnd ásamt Kristjáni Loftssyni.

16.10.1976. Vinna vegna tenginga á línu frá Landsvirkjun. Vél I keyrð á móti Landsvirkjun.

17.10.1976. Fór til rafstöðvar kl. 6 að morgni, þá var allt orðið hvítt. Landsvirkjunarrafmagn á móti vél I og gengur mjög vel.

01.02.1977. Minnkað við Caterpillar Drangsnesi. Rafmagn frá Landsvirkjun, vatnsvél I og caterpillar Drangsnesi. Rofi bilaði á Drangsnesi, Sævar og Mundi fóru þangað.

16.03.1977. Slit á Tröllatunguheiðarlínu, mikil ísing. Línumenn vinna við viðgerð á heiðinni ásamt Kristjóni og hans mönnum.

05.05.1977. Sumarveður, sól, leysing, norðvestan gola. Vatnshæð 4,35.

10.05.1977. Bílar úr Reykjavík frá Rarik fara norður í Árnes með línuefni, vírrúllur o.fl.

17.07.1977. Eysteinn og Sævar fara að vinna við heimtaugar í Árneshreppi.

15.09.1977. Jón Traustason flytur burtu þennan dag. ÞR kom frá Djúpuvík kl. 18:30.

08.10.1977. Landsvirkjun fór út á miðnætti. Vél I látin taka álagið um nóttina. Friðþjófur H. skoðaði í Árneshreppi.

28.10.1977. Slydda. Ísing komin á Bassastaðalínu. 11 staurar hallast. Vinna við jarðskaut millispennis við Selá.

30.11.1977. Árneslína. Straumur settur á línuna kl. 12:15.

23.01.1981. Vatnsborð 4,05 m undir yfirfalli.

22.12.1981. Þverárvirkjun 17 stiga frost.

21.01.1982. Rafmagn fer af Drangsnesi kl 2:15. Sævar og Eystein fara á Drangsnes. Halldór í virkjun. ÞR í virkjun frá kl 23 til 5:20 að morgni. Rafmagn var tekið af byggðalínu vegna rofauppsetningar á Glerárskógum. Byggðalína komin inn kl 5. Dísill einnig keyrður á Reykhólum um nóttina.

24.01.1982. Eysteinn með dísil Hólmavík. ÞR með virkjun.

25.01.1982. ÞR fór til virkjunar kl 3:30 um nótt, þá farið rafmagn. Komið var norðaustan rok og snókoma, mikil ófærð. Vegur ófær hjá Jakobínugirðingu. Fór þaðan gangandi til virkjunar og var komin í stöðina kl. 4:20. Allar línur reyndust úti, vél I þó inni svo ljós voru í stöðinni. Vél I og vél II keyrðar og að auki dísilvélar á Hólmavík og Drangsnesi. Bilun reyndist á Tröllatunguheiði.

26.01.1982. Bilun fannst á Tröllatunguheiði, straumur kominn á línuna kl. 19. Kl. 18:30 fara Sævar og Eysteinn norður í Árneshrepp vegna bilunar á háspennulínu þar. Þeir voru ekki fáanlegir til að fara snemma á miðvikudagsmorgun (27.01).

27.01.1982. Erfið ferð línumanna um Trékyllisheiði norður í Árneshrepp. Snjósleðinn sem Eysteinn var á lenti á svelli og fór fram af hengju en hann gat áður kastað sér af sleðanum.

06.03.1982. Rafmagn fór af um nóttina, varavélar ræstar og keyrðar þar til Lands-virkjun kom inn. Um kl. 1:30 fór veður að versna, fór til virkjunar, kominn þar kl. 4, þá komið ofsaveður. Þó fór rafmagn ekki af línum um nóttina. Gist í rafstöð um nóttina.

02.04.1982. Vaknaði í morgun kl. 6 við sönginn í tjaldinum sem var þá í hópum. Logn, léttskýjað, frost 5 stig kl. 7:40. Sjóinn lagði í nótt langt út á fjörð. ÞR í virkjun. Skipt um breiðari reim á vél I, lagfærður kolatór á matara vél I, vél II smurð.

03.05.1982. Helgi Ingimundarson byrjar að vinna hjá OV.

08.05.1982. Vorblíða. Maríuerlan komin í gluggann á virkjuninni.

30.11.1982. Lokið við samsetningu Hólmavíkurdísilvélar.
Flettingar í dag: 3609
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2065
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 1288658
Samtals gestir: 72144
Tölur uppfærðar: 6.1.2025 22:05:18
Flettingar í dag: 3609
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2065
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 1288658
Samtals gestir: 72144
Tölur uppfærðar: 6.1.2025 22:05:18
clockhere